Einir

Einirinn á Hólasandi hefur lifað af þá gróðureyðingu sem þar olli því að mestallur gróður eyddist á 19. öld og í byrjum þeirrar tuttugustu. Sums staðar er lítinn annan gróður að sjá þar sem einirinn vex en lúpína, birki, lerki og fleiri plöntutegundir eru smám saman að klæða sandinn að nýju. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Einir, Juniperus communis, er eina barrviðartegundin sem óx á Íslandi fyrir landnám. Hann er fremur algengur um nær allt land, síst þó í Húnavatnssýslum, Rangárvallasýslu og í Skaftafellssýslu vestanverðri (Hörður Kristinsson - floraislands.is). Tegundin vex helst í mólendi, hraunum, kjarri og brekkubrúnum. Einir er fremur lágvaxinn, kræklóttur runni með nállaga blöð. Þótt hann sé stundum uppréttur og geti mest náð um tveggja metra hæð er hann yfirleitt jarðlægur (30-120 cm). Einir er sérbýlisplanta og því eru einstaklingar af tegundinni kvenkyns eða karlkyns. Einiberin eða berkönglar einis þroskast á tveimur árum og eru notaðir sem krydd í matargerð og sterka drykki.