Einir, Juniperus communis, er eina barrviðartegundin sem óx á Íslandi fyrir landnám. Hann er fremur algengur um nær allt land, síst þó í Húnavatnssýslum, Rangárvallasýslu og í Skaftafellssýslu vestanverðri (Hörður Kristinsson - floraislands.is). Tegundin vex helst í mólendi, hraunum, kjarri og brekkubrúnum. Einir er fremur lágvaxinn, kræklóttur runni með nállaga blöð. Þótt hann sé stundum uppréttur og geti mest náð um tveggja metra hæð er hann yfirleitt jarðlægur (30-120 cm). Einir er sérbýlisplanta og því eru einstaklingar af tegundinni kvenkyns eða karlkyns. Einiberin eða berkönglar einis þroskast á tveimur árum og eru notaðir sem krydd í matargerð og sterka drykki.