Svartelri eða svartölur er sumargrænt lauftré með óvenjulega hæfni til að þrífast í blautum jarðvegi með kyrrstæðu vatni. Hún vex í votlendi við fljót og með fram ám og lækjum um mestalla Evrópu, frá Skandinavíu til Miðjarðarhafslanda og austur um Litlu-Asíu til Írans. Hana er að finna á stöku stað í dölum Atlasfjalla í Norður-Afríku, Marokkó, Túnis og Alsír. Norðurmörkin eru á 65°N við Helsingjabotn nærri Oulu í Finnlandi. Í Noregi vex hún með fram ströndinni norður á Sunnmæri og finnst á stöku stað að 64°N í Þrændalögum. Í Austur-Noregi finnst hún á blettum norður í Rendalen á 61°53´N. Í Evrópu er tegundin mest á láglendi en teygist einnig til fjalla og í Týrol nær hún í 1.200 m hæð yfir sjó.