Lundarnir komnir

Lundar eru með marglitan gogg og grafa holur.

Lundi er algengastur fugla á Íslandi og telur um 10 milljónir. Talið er að í Vestmannaeyjum séu um 1,1 milljón pör. Á Borgarfirði Eystra er talið að um 8.000 – 10.000 pör verpi. Um miðjan apríl fara fyrstu lundarnir að sjást við landið en í byrjun maí eru þeir nánast allir komnir ,,heim“ fyrir alvöru. Það eru oftast kynþroska fuglar sem fyrstir koma, þá eru liðnir sjö mánuðir síðan þeir yfirgáfu ,,byggðina“ síðast.

Allan þann tíma hefur fuglinn haldið sig á hafi úti langt fyrir sunnan og suðaustan land, einnig eru eldri fuglar við suðurodda Grænlands. Yngri fuglinn þvælist víðar er m.a við strendur Nýfundnalands. Lundinn er algengastur svartfugla hér á landi. Hann stendur uppréttur og á auðvelt með gang. Fuglinn vegur um hálft kíló og er um 20 cm á hæð að meðaltali. Hann getur kafað niður á allt að 60m dýpi og er góður flugfugl með allt að 400 vængslætti á mínútu og getur náð allt að 88km hraða á klukkustund. Lundinn er langlífur fugl sem getur orðið áratuga gamall. Við náttúrulegar aðstæður er talið að meðalaldur lundans sé á bilinu 20 til 25 ár. Elsti lundinn sem vitað er um var 38 ára, hann var merktur í Vestmannaeyjum.

Varp

Lundinn verður kynþroska um 4 til 5 ára aldur. Varptími þeirra er frá seinni hluta maí fram í fyrrihluta júní. Lundinn verpir einungis einu eggi sem er um 60g að þyngd. Hann verpir í holu sem hann grefur sér og getur hún verið um hálfs metra löng. Útungun tekur um 40 daga. Unginn heldur sig í holunni í um 45 daga eftir klak og heldur þá á haf út. þar eyðir hann næstu 3 til 5 árum við fiskveiðar og velur sér maka. Talið er að lundi makist til lífstíðar.


Heimild: https://is.wikipedia.org/wiki/Lundi