Árið 1778 var fyrsta íbúðarhúsið reist á staðnum og varanleg búseta hófst. 8 árum síðar fékk bærinn kaupstaðarréttindi ásamt fimm öðrum bæjum á Íslandi. Þetta var að undirlagi Danakonungs en hann vildi reyna að efla hag Íslands með því að hvetja til þéttbýlismyndunar þar en slíkt var þá nánast óþekkt á landinu. Akureyri stækkaði þó ekki við þetta og missti kaupstaðarréttindin 1836 en náði þeim aftur 1862 og klauf sig þá frá Hrafnagilshreppi, þá hófst vöxtur Akureyrar fyrir alvöru og mörk Akureyrarbæjar og Hrafnagilshrepps voru færð nokkrum sinnum enn eftir því sem bærinn stækkaði.
Bændur í Eyjafirði voru þá farnir að bindast samtökum til að styrkja stöðu sína gagnvart dönsku kaupmönnunum, uppúr því varð Kaupfélag Eyfirðinga (KEA) stofnað. KEA átti mikinn þátt í vexti bæjarins, á vegum þess voru rekin mörg iðnfyrirtæki í bænum sem mörg sérhæfðu sig í úrvinnslu landbúnaðarafurða. Árið 1954 var mörkum Akureyrarbæjar og Glæsibæjarhrepps breytt þannig að það þéttbýli sem tekið var að myndast handan Glerár teldist til Akureyrar, þar hefur nú byggst upp Glerárhverfi.
Akureyri stendur við botn Eyjafjarðar við Pollinn en svo er sjórinn milli Oddeyrar og ósa Eyjafjarðarár kallaður. Í gegnum bæinn rennur Glerá sem aðskilur Glerárhverfi (Þorpið) frá öðrum bæjarhlutum. Önnur hverfi bæjarins eru Oddeyri, Brekkan, Naustahverfi, Lundahverfi, Innbærinn og Miðbær.
Texti af Wikipedia.
Mynd með frétt: Panoramio/Kristinn Ingi Péturs…, CC BY-SA 3.0, Link. Mynd tekin 2005-06-08.